Norska blaðið Verdens Gang segir í dag, að grunur leiki á að öryggisþjónusta norska hersins hafi fylgst með netnotkun Haraldar Noregskonungs og fjölskyldu hans. Rannsókn fer nú fram á því hvort öryggisþjónustan hafi brotið lög með því að fylgjast með netnotkun norskra ráðherra og starfsmanna ráðuneyta.
Verdens Gang segir, að starfsmaður konungshallarinnar hafi tekið eftir því, að öryggisþjónustan hafi farið inn á samskiptakerfi hallarinnar, sem á að vera alveg lokað fyrir utanaðkomandi aðilum.
Norska ríkisútvarpið NRK segir, að öryggisþjónustan hafi hafist handa við að fylgjast með netnotkun ráðuneytanna eftir að starfsmaður öryggisþjónustunnar varð var við, að embættismaður í dómsmálaráðuneytinu var að skoða klámsíður á netinu í vinnunni.
Þegar öryggisþjónustan gaf síðan skýrslu um málið vildi ráðuneytið vita hvernig þær upplýsingar hefðu borist út og þá komst upp að öryggisþjónustan hafði fylgst kerfisbundið með netnotkun ráðuneyta.
Norska öryggislögreglan, Krypos, rannsakar nú málið.