Stúlkur í Zimbabwe selja sig fyrir mat

Sífellt fleiri stúlkur í Zimbabwe neyðast til þess að stunda vændi til þess að eiga fyrir mat og öðrum nauðþurftum.

Samkvæmt upplýsingum frá góðgerðarsamtökunum Bjargið börnunum (Save the Children) hefur aukin fátækt í landinu leitt til þess að ungar stúlkur allt niður í 12 ára aldur neyðast til þess að selja kynferðislegan aðgang að líkömum sínum í skiptum fyrir kexpakka. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins.

Forsvarmenn samtakanna halda því fram að komandi heimsmeistaramót í Suður-Afríku muni aðeins gera illt verra. Talið er að atvinnuleysi í Zimbabwe er um 90% og fæstir hafa efni á mat, lyfjum eða skólagjöldum.

Í samtali við BBC segir skólastjóri stórs skóla að hundruðir kvenkyns nemenda hans neyðist nú til að selja aðgang að líkömum sínum fyrir nánast hvað sem er. 

„Það getur verið bækur, kex, flögur eða jafnvel bara faðmlag.“

Að sögn Rachel Pounds, framkvæmdastjóra hjá Björgum börnunum, segir allt benda til þess að hætta sé á að stúlkurnar verði fórnarlömb skipuleggjenda mansal. Talið er að skipuleggjendur slíks stefni að því að senda ungar stúlkur frá Zimbabwe til Suður-Afríku til þess að þjónusta alla þá fótboltaáhorfendur sem von er á næsta ári sem hyggjast kaupa sér aðgang að vændi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert