Brúðkaupið breyttist í martröð

Það er óhætt að segja, að brúðkaupsnótt fertugra breskra hjóna hafi breytt lífi þeirra en ekki með þeim hætti, sem búast mætti við. Hjónin voru í gær fundin sek um að verða manni að bana morguninn eftir brúðkaupið.

Þau Wendy Shobrook og Barry Johnson, sem búa í Plymouth, giftu sig 9. júní í fyrra. Að sögn breska ríkisútvarpsins, BBC, neyttu brúðhjónin í kjölfarið ótæpilega af dýrum veigum með þeim afleiðingum, að þau lentu í heiftarlegu rifrildi. Wendy bar síðan eld að hjónarúminu og lýsti því yfir, að eiginmaður hennar nýbakaður skyldi brenna í helvíti.

Á meðan Barry reyndi að slökkva eldinn, sem breiddist út í húsinu, hélt Wendy á brott og  heim til vinar síns, George Auchterlonie, 45 ára. Morguninn eftir hringdi Wendy í eiginmann sinn og sagði, að Auchterlonie hefði reynt að nauðga sér og stela peningum af sér.

Barry Johnson fór þá í íbúð Auchterlonie og réðist á hann með ár og snafsaglas að vopni. Alls voru 38 sár á líki Auchterlonie þegar það fannst þremur sólarhringum síðar. 

Refsing hjónanna verður ákveðin eftir mánuð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert