Ali Khamenei, erkiklerkur og æðsti embættismaður Írans, fagnar sigri Mahmoud Ahmadinejad í forsetakosningunum. Á sama tíma saka andstæðingar forsetans hann um kosningasvik.
„Kosningaþátttaka upp að allt að 80% og 24 milljónir atkvæða fyrir forsetann er sannkölluð hátíð sem getur tryggt framfarir í landinu, öryggi þjóðarinnar og viðvarandi gleði,“ sagði klerkurinn í yfirlýsingu sem var lesin upp í sjónvarpi.
„Ég óska fólkinu ... til hamingju með þennan mikla árangur og hvet alla til að vera þakkláta fyrir þessa himnesku blessun,“ var haft eftir klerkinum.