Mir Hossein Mousavi kveðst ekki munu beygja sig undir „hættulega atburðarás“ í írönsku forsetakosningunum í gær. Andstæðingur hans, Mahmoud Ahmadinejad, vann kosningasigur ef marka má úrslit íranskrar kjörstjórnar og má ráða af orðum Mousavi að hann telji óhreint mjög hafa verið í pokahorninu.
Segir Mousavi það „skyldu sína gagnvart þjóð sinni og trúnni að afhjúpa leyndarmál hins hættulega ferlis og útskýra skaðlegar afleiðingar þess fyrir framtíð landsins“.
Mousavi, sem var forsætisráðherra Írans þegar landið átti í stríði við Írak á árunum 1980 til 1988, telur því að óeðlilega hafi verið staðið að kosningunum.
Um það vitni fjöldi augljósra atriða sem benti til þess að brögð hafi verið höfð í tafli.
Um 46,2 milljónir manna voru á kjörskrá en um helmingur þeirra fæddist eftir íslömsku byltinguna árið 1979.
Andstæðingar Ahmadinejads hvöttu Írana til að flykkjast á kjörstaði þar sem þeir töldu að mikil kjörsókn yki líkurnar á því að forsetinn biði ósigur.
Nú er ljóst að kjörsókn var afar góð en þrátt fyrir það er forsetinn sagður hafa unnið yfirburðasigur.