Bjargar Ahmadinejad Netanyahu fyrir horn?

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, og Ehud Barak, varnarmálaráðherra og formaður …
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, og Ehud Barak, varnarmálaráðherra og formaður Verkamannaflokksins. Reuters

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, mun halda ræðu um utanríkisstefnu stjórnar sinnar í háskóla í Ísrael í dag. Ræðunnar hefur verið beðið með eftirvæntingu en fréttaskýrendur segja að atburðirnir í Íran undanfarna daga auðveldi honum að færa rök fyrir stefnu sinni og sniðganga erfið málefni í ræðunni. Þetta kemur fram á fréttavef Ha´aretz.

Netanyahu hefur verið undir miklum þrýstingi frá nýrri Bandaríkjastjórn um að gefa eftir í andstöðu sinni við stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna. Hefur verið talið að hann muni bregðast við því í ræðunni og jafnvel fallast á tveggja ríkja lausn í deilum Ísraela og Palestínumanna. Samkvæmt upplýsingum ráðgjafa hans mun hann hins vegar leggja aðaláhersu á afstöðu stjórnar sinnar til Írans í ræðunni sem haldin verður í Bar Ilan háskólanum. 

Ehud Barak, formaður Verkamannaflokksins, mun hafa sagt þingflokki sínum í morgun að gera sér ekki miklar væntingar um eftirgjöf að hálfu Netanyahu. „Ræðan verður mjög varkár, mjög óljós þannig að þið ættuð ekki að gera ykkur miklar væntingar," sagði hann.

 Simon Peres, forseti landsins og Barak áttu fund með Netanyahu í gær þar sem þeir hvöttu hann til að fallast á svokallaðan vegvísi Bandaríkjastjórnar og lýsa yfir vilja til að fallast á stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna með fyrirvörum.

Netanyahu lýsti því hins vegar yfir á föstudag að hann myndi aldrei fallast á stofnun ríkis Palestínumanna á Vesturbakkanum þar sem Hamas-samtökin réðu ríkjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert