Fjórtán mánaða danskur drengur lést sl. haust, hálfum mánuði eftir að hann gleypti litla rafhlöðu. Foreldrarnir segjast hafa rætt við 11 lækna en enginn fékkst til að taka röntgenmynd af drengnum. Veikindin voru greind sem eyrnabólga eða magakveisa. Þetta kemur fram í danska blaðinu Berlingske Tidende í dag.
Forráðamenn Sjúkrahúss Holbækborgar neita því að læknar hafi gert mistök. Foreldrar drengsins, Christians Jim Andersen, hafi ekki greint frá þeim grun sínum að drengurinn hefði gleypt rafhlöðu en þau halda hinu gagnstæða fram. Kveðast hafa tjáð bæði lækni og hjúkrunarfræðingi á barnadeild Sjúkrahúss Holbæk borgar frá því.
Við krufningu kom í ljós að sýra úr rafhlöðunni hafði gert gat á magavegg barnsins og slagæð sem varð til þess að Christian litla blæddi út.