Mikil spenna í Íran

Fréttaskýrendur segja að hin mikla spenna sem ríkir í Íran í kjölfar þess að  Mahmoud Ahmadinejad var endurkjörinn forseti landsins geti hrint af stað þróun sem ekki verði séð fyrir endan á.

Þá segja þeir yfirlýsingar Ahmadinejad eftir að úrslitin voru kynnt bera vott um þá algeru gjá sem sé á milli hans og klerkastjórnarinnar í Íran annars vegar og umbótasinna í Íran og umheimsins hins vegar.

Forsetinn hefur m.a. sagt að yfirburðasigur hans á helsta keppinauti hans Mir Hossein Mousavi, hafi verið svo mikill að ekki sé hægt að efast um hann. Stuðningsmenn Mousavis og erlendir gagnrýnendur framkvæmdar kosninganna segja hins vegar að hinir miklu yfirburðir Ahmadinejad geti ekki talist trúverðugir.

 Ahmadinejad sagði m.a. fyrr í dag að kosningar væru eins og fótboltaleikur og að þeir sem töpuðu yrðu bara að sætta sig við það.

Ahmad Reza Radan, aðstoðarlögreglustjóri í Teherans, segir að 170 hafi verið handteknir frá því tilkynnt var um kosningaúrslitin í gær, þeirra á meðal nokkrir skipuleggjendur mótmæla. Þá varaði hann við því að tekið verði af festu á mótmælendum.

Samkvæmt upplýsingum kjörstjórnar landsins hlaut Ahmadinejad 63% atkvæða en Mousavi 34%. Allar skoðanakannanir og kosningaspár höfðu hins vegar gefið til kynna að mun mjórra yrði á mununum.

Þá hafa sögusagnir verið á kreiki um misræmi í kosningaúrslitunum.

Ahmadinejad Íransforseti er hann kom fram á blaðamannafundi í Teheran …
Ahmadinejad Íransforseti er hann kom fram á blaðamannafundi í Teheran í dag. Reuters
Stuðningsmenn Mirhossein Mousavi motmæla kosningaúrslitunum
Stuðningsmenn Mirhossein Mousavi motmæla kosningaúrslitunum Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert