Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, lýsti því í fyrsta skipti yfir nú síðdegis að hann styddi stofnun sjálfstæðs Palestínuríkis en tók fram, að slíkt ríki yrði að vera vopnlaust og viðurkenna Ísrael sem ríki gyðinga.
„Ef við höfum tryggingu fyrir því að ríkið verði vopnlaust og ef Palestínumenn viðurkenna Ísrael sem ríki gyðinga þá gætum við fundið lausn, sem byggist á vopnlausu Palestínuríki við hlið Ísraels. Hvort ríki hefði sinn fána, sinn þjóðsöng," sagði hann í ræði í Knesset, ísraelska þinginu í Jerúsalem. „Á svæði Palestínumanna verður enginn her."
Fyrstu viðbrögð Palestínumanna við þessari yfirlýsingu voru ekki jákvæð. Forsetaskrifstofa Palestínumanna sagði, að Netanyahu hefði stórskaðað möguleika á koma friðarferlinu af stað að nýju. Þá sögðu Hamassamtökin, sem ráða ríkjum á Gasasvæðinu, að ræða ísraelska forsætisráðherrans endurspeglaði hugmyndafræði kynþáttahatara og öfgamanna.
Netanyahu sagði einnig, að ekki kæmi til greina að taka við palestínskum flóttamönnum í Ísrael þar sem slíkt bryti gegn meginreglum gyðingaríkis. Þá útilokaði hann, að landtaka gyðinga á Vesturbakkanum verði stöðvuð eins og Bandaríkjamenn hafa krafist. Hann útilokaði einnig, að Jerúsalem verði höfuðborg Palestínuríkis.