Kuupik Kleist, nýr formaður landsstjórnarinnar á Grænlandi, segist ekki munu líða hirðuleysi og spillingu. Hann segir í samtali við danska blaðið Berlingske Tidende, að ef stjórmálamenn verði uppvísir að því að maka krókinn og misnota stöðu sína í eigin þágu, fjölskyldu eða vina muni þeir fá reisupassann.
Kleist er leiðtogi vinstriflokksins Inuit Ataqatigiit sem vann stórsigur í þingkosningum á Grænlandi fyrir skömmu. Hann segir í viðtalinu, að ef ráðherra verði uppvís að því að brjóta siðareglur Kuupiks Kleist verði hann rekinn á stundinni.
Hann segist m.a. ekki munu þola að stjórnmálamenn misnoti sér aðstöðu sína hjá opinberum stofnunum og úthluti m.a. rækjukvóta og störfum til vina og fjölskyldumeðlima. Mörg slík dæmi hafa komið upp á undanförnum árum og áratugum.
Kleist segist í viðtalinu vonast til þess, að ekki þurfi að koma til aðgerða gegn stjórnmálamönnum og þeir láti sér þessa viðvörun sér að kenningu verða.