Olíurisanum Exxon Mobil hefur verið gert að greiða 507,5 milljónir Bandaríkjadala, eða sem svarar um 65 milljörðum króna, auk vaxta, vegna þess skaða sem hlaust af einu mesta olíuslysi sögunnar í Alaska fyrir 20 árum þegar olíuflutningaskipið Exxon Valdez strandaði.
Úrskurðurinn féll í áfrýjunarrétti í Pasadena í Kaliforníu sem staðfesti þar með sektargreiðslu Hæstaréttar Bandaríkjanna frá því í fyrra, jafnframt því sem fyrirtækinu er gert að greiða 5,9% vexti af upphæðinni frá og með septembermánuði 1996 þegar réttarhöld í málinu hófust.
Er heildarupphæðin því sögð fara nærri því að verða tvöföld sektargreiðslan, að teknu tilliti til vaxta.
Samanlagt mun það því þýða um milljarð dollara en það er aðeins um fimmtungur þess tjóns sem slysið er talið hafa valdið hjá ýmsum hagsmunaaðilum í Alaska.
Þegar málið var fyrst tekið fyrir í rétti var komist að þeirri niðurstöðu að þessi upphæð, 5 milljarðar dala, væri hæfileg sektargreiðsla.
Upphæðin var hins vegar lækkuð eftir áfrýjun Exxon Mobil.