Khameini fyrirskipar rannsókn á meintu kosningasvindli

Stuðningsmenn Mousavi hafa mótmælt úrslitunum á götum Teheran.
Stuðningsmenn Mousavi hafa mótmælt úrslitunum á götum Teheran. Reuters

Íranska ríkissjónvarpið segir að erkiklerkurinn Ali Khamenei, sem er æðsti leiðtogi Írans, hafi fyrirskipað rannsókn á ásökunum um að ekki hafi verið staðið heiðarlega að forsetakosningunum á föstudag.

Khamenei hefur skipað hinu valdamikla Verndarráði að rannsaka málið, en forsetaframbjóðandinn Mir Hossein Mousavi heldur því fram að stórfellt kosningasvindl hafi átt sér stað á föstudag.

Fréttaskýrendur segja þetta koma á óvart enda fagnaði Khameini niðurstöðunni í fyrstu.

Írönsk stjórnvöld lýstu því yfir að Mahmoud Ahmadinejad hefði náð endurkjöri sem forseti landsins í kosningunum og hlotið yfirgnæfandi meirihluta atkvæða.

Mosavi hefur áfrýjað málinu til Verndarráðsins, sem 12 eiga sæti í og er ein meginstoð klerkaveldisins í landinu. Þá átti Mousavi fund með Khameini í gær.

Stuðningsmenn Mousavis hafa mótmælt úrslitunum undanfarna þrjá dag á götum Teheran, höfuðborgar Írans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert