Líkir kerfinu við tímasprengju

Barack Obama á fundi með bandarísku læknasamtökunum, American Medical Association, …
Barack Obama á fundi með bandarísku læknasamtökunum, American Medical Association, í Chicago fyrr í dag. Reuters

Barack Obama Bandaríkjaforseti reynir nú að sannfæra bandarísku læknasamtökin (AMA) um nauðsyn þess að hrinda af stað umbótum á heilbrigðiskerfinu. Varar forsetinn við því að ef ekki verði gripið til aðgerða strax geti Bandaríkin farið sömu leið og General Motors.

Obama gerði læknasamtökunum grein fyrir afstöðu sinni á fundi í Chicago þar sem hann sagði núverandi kerfi leiða til þess að of margir væru án heilbrigðistryggingar, en áætlað hefur verið að á fimmta tug milljóna Bandaríkjamanna séu í þessum hópi.

Þá leiddi ótti lækna við málsóknir til þess að of mikil orka og fjármunir færu í óþarfa skoðanir í stað þess að gagnast sjúklingum.

Hins vegar væri ósanngjarnt gagnvart sjúklingum að setja þak á skaðabótakröfur vegna læknamistaka, sjónarmið sem læknarnir brugðust við með því að baula á forsetann.

Forsetinn tók sérstaklega fram að hann væri ekki að mæla fyrir sósíalísku heilbrigðiskerfi um leið og hann varaði við hræðsluáróðri þeirra sem héldu því fram. 

Afdrif GM væri víti til varnaðar.

„Stór hluti ástæðunnar fyrir því að General Motors og Chrysler lentu í vandræðum ... var sá mikli kostnaður sem safnaðist saman við að veita starfsmönnum sínum heilbrigðisþjónustu, kostnaður sem hafði í för með sér að þau urðu síður ábatasöm og minna samkeppnishæf við bílaframleiðendur víðsvegar um heiminn,“ sagði forsetinn í ræðu sinni. 

„Ef við lögum ekki heilbrigðiskerfið okkar geta Bandaríkin farið sömu leið og GM - að borga meira en fá minna og fara á hausinn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert