Áhyggjur af ástandinu í Íran

00:00
00:00

Rík­is­stjórn­ir víða um heim hafa í morg­un lýst mikl­um áhyggj­um af stöðu mála í Íran en að minnsta kosti sjö manns létu lífið þegar lög­regla beitti skot­vopn­um gegn fólki, sem mót­mælti úr­slit­um for­seta­kosn­inga. Er þess kraf­ist að stjórn­völd í Íran geri hreint fyr­ir sín­um dyr­um varðandi kosn­ing­arn­ar. 

„Við höld­um áfram að fylgj­ast grannt með ástand­inu í Íran," sagði Frank-Walter Stein­meier, ut­an­rík­is­ráðherra Þýska­lands.  „Það er enn mik­il spenna á göt­um borg­anna. Það verður að stöðva of­beld­is­verk ör­ygg­is­sveita gegn mót­mæl­end­um."

Hirofumi Naka­so­ne, ut­an­rík­is­ráðherra Jap­ans, sagði að þarlend stjórn­völd hefðu mikl­ar áhyggj­ur af ástand­inu í Íran. Stjórn­völd í fleiri ríkj­um og mann­rétt­inda­sam­tök full­yrða að víðtæk mann­rétt­inda­brot séu fram­in í Íran en á sjón­varps­mynd­um sáust lög­regla og ör­ygg­is­veit­ir beita tára­gasi og beina skot­vopn­um að mann­fjölda í Teher­an, höfuðborg Írans. Talið er að allt að millj­ón manns hafi tekið þátt í mót­mælaaðgerðum í borg­inni í gær. 

Talsmaður fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins sagði að ír­önsk stjórn­völd yrðu að viður­kenna rétt þegn­anna til að mót­mæla með friðsöm­um hætti. 

Yfir­kjör­stjórn Írans lýsti því yfir um helg­ina að Mahmoud  Ahma­dinejad hefði verið end­ur­kjör­inn for­seti með 63% at­kvæða. Mir Hossein Mousavi, helsti keppi­naut­ur for­set­ans, hef­ur hins veg­ar sakað Ahma­dinejad um stór­felld kosn­inga­svik. Vernd­ar­ráðið, æðsta ráð Írans, sagðist í morg­un myndi fall­ast á end­urtaln­ingu at­kvæða ef sýnt yrði fram á rétt­mæt­ar grun­semd­ir um brot á kosn­inga­lög­um.   

Gor­don Brown, for­sæt­is­ráðherra Bret­lands, sagði í morg­un að ír­önsk stjórn­völd yrðu að fjalla um þær spurn­ing­ar, sem spurt hefði verið um fram­kvæmd kosn­ing­anna.  

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert