Áhyggjur af ástandinu í Íran

Ríkisstjórnir víða um heim hafa í morgun lýst miklum áhyggjum af stöðu mála í Íran en að minnsta kosti sjö manns létu lífið þegar lögregla beitti skotvopnum gegn fólki, sem mótmælti úrslitum forsetakosninga. Er þess krafist að stjórnvöld í Íran geri hreint fyrir sínum dyrum varðandi kosningarnar. 

„Við höldum áfram að fylgjast grannt með ástandinu í Íran," sagði Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands.  „Það er enn mikil spenna á götum borganna. Það verður að stöðva ofbeldisverk öryggissveita gegn mótmælendum."

Hirofumi Nakasone, utanríkisráðherra Japans, sagði að þarlend stjórnvöld hefðu miklar áhyggjur af ástandinu í Íran. Stjórnvöld í fleiri ríkjum og mannréttindasamtök fullyrða að víðtæk mannréttindabrot séu framin í Íran en á sjónvarpsmyndum sáust lögregla og öryggisveitir beita táragasi og beina skotvopnum að mannfjölda í Teheran, höfuðborg Írans. Talið er að allt að milljón manns hafi tekið þátt í mótmælaaðgerðum í borginni í gær. 

Talsmaður framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sagði að írönsk stjórnvöld yrðu að viðurkenna rétt þegnanna til að mótmæla með friðsömum hætti. 

Yfirkjörstjórn Írans lýsti því yfir um helgina að Mahmoud  Ahmadinejad hefði verið endurkjörinn forseti með 63% atkvæða. Mir Hossein Mousavi, helsti keppinautur forsetans, hefur hins vegar sakað Ahmadinejad um stórfelld kosningasvik. Verndarráðið, æðsta ráð Írans, sagðist í morgun myndi fallast á endurtalningu atkvæða ef sýnt yrði fram á réttmætar grunsemdir um brot á kosningalögum.   

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, sagði í morgun að írönsk stjórnvöld yrðu að fjalla um þær spurningar, sem spurt hefði verið um framkvæmd kosninganna.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert