Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn John Ensign viðurkenndi í kvöld að hafa átt í ástarsambandi við konu í starfsliði sínu. Ensign, sem er þingmaður Repúblikanaflokksins í Nevada, segir í yfirlýsingu að hann iðrist gerða sinna mjög.
Starfsmaður á skrifstofu Ensigns sagði, að þetta hefði gerst á tímabilinu frá desember 2007 til ágúst 2008. Um væri að ræða konu, sem var gift starfsmanni á skrifstofu Ensigns í öldungadeildinni. Þau hættu bæði störfum fyrir þingmanninn í maí á síðasta ári.
„Ég veit að ég hef valdið eiginkonu minni, fjölskyldu, starfsmönnum og íbúum Nevada miklum sársauka og vonbrigðum en þau trúðu á mig ekki aðeins sem þingmann heldur einnig sem manneskju," sagði Ensign í yfirlýsingunni.
Ensign hefur verið öldungadeildarþingmaður frá árinu 2000 og áhrifamaður þar. Ekki er vitað hvaða áhrif þetta mun hafa á feril hans.