Afar fjölmennur mótmælafundur stendur nú yfir í Teheran, höfuðborg Írans. Breska ríkisútvarpið BBC hefur þetta eftir sjónvarvottum en segist ekki geta sannreynt fréttina vegna þess að erlendum fréttastofum í landinu hefur verið bannað að segja fréttir af mótmælafundum stjórnarandstæðinga.
Um er að ræða stuðningsmenn Mir Hossein Mousavis, forsetaframbjóðanda, sem raunar hvatti stuðningsmenn sína til að sækja ekki fundinn þar sem hætta væri á átökum við stuðningsmenn Mahmouds Ahmadinejads, forseta landsins, sem einnig boðuðu til fundar í miðborginni á sama tíma.
Mousavi hefur sakað Ahmadinejad um víðtæk kosningasvik. Fréttir hermdu að sjö manns hið minnsta hefðu látið lífið í gær þegar hermenn og öryggisveitir beittu skotvopnum gegn mótmælendum.
Talið er að yfir milljón manna hafi tekið þátt í mótmælafundi í miðborg Teheran í gær og hefur BBC eftir sjónarvottum, að hugsanlega sé fundurinn í dag enn fjölmennari. Hann er haldinn í norðurhluta borgarinnar skammt frá höfuðstöðvum ríkissjónvarps Írans.