„Sumir vilja meina að fólk utan af landsbyggðinni hafi verið flutt til Teheran. Ég er á því að þetta sé aðkeyptur hópur. Spjöldin sem hann hefur eru mjög vel gerð og sniðin að vestrænum sjónvarpsáhorfendum,“ segir Magnús Þorkell Bernharðsson, sérfræðingur í málefnum Miðausturlanda.
Magnús Þorkell telur þannig stuðninginn við Mahmoud Ahmadinejad hafa verið settan á svið til mótvægis við mótmæli fylgismanna helsta keppinautar hans, Mirs Hosseins Mousavis, í höfuðborginni Teheran.
„Þetta hefur verið skipulagt, því að mótmælin fóru fram á sama tíma og Mousavi hafði skipulagt útifund. Ríkisfjölmiðlarnir auglýstu þessa fundi mjög og hvatti fólk til að mæta. En á sama tíma vöruðu þeir fólk við að mæta á þann fund sem stuðningsmenn Mousavis efndu til.
Með þessum hætti tóku stuðningsmenn Mousavis töluverða áhættu að mæta á fundinn.“