Vélin brotnaði í tvennt

Flugvélabrak úr Air France vélinni.
Flugvélabrak úr Air France vélinni. Reuters

Air France vélin brotnaði í tvennt áður en hún skall á haffletinum. Öll líkin sem fundist hafa bera þess merki að farþegarnir létust áður en þeir féllu í sjóinn.

Nýjar rannsóknir sýna að flugvél Air France sem fórst í Atlantshafinu með 228 farþega innanborðs brotnaði í tvennt áður en hún skall á vatnsfletinum. Nýjar bráðabirgðaniðurstöður flugslysarannsóknarmanna gefa þetta til kynna. Þetta má sjá á vef Jyllandsposten.

Samkvæmt The Times þýðir þetta að einhverjir farþeganna köstuðust út úr flugvélinni meðan hún var enn hátt á flugi.

Rannsóknarmenn hafa komist að þessum niðurstöðum eftir að hafa fundið lík með meira en 80 km millibili. Rannsóknir leiða ennfremur í ljós að öll líkin sem fundist hafa, rúmlega 50, bera þess merki að farþegarnir voru látnir áður en þeir skullu í vatnið.

Þá eru engin merki um bruna á líkunum eða um reyk í lungum. Þetta þýðir að það varð ekki sprenging í vélinni og að slysið er afleiðing margra samverkandi vandamála sem geta hafa skapast vegna bilunar í hraðaskynjurum.

Samkvæmt Reuters hefur Air France átt í vandræðum vegna íss á hraðamælum áður. Meðal annars í maí 2008 þegar Airbus sem framleiðir flugvélarnar sem komu við sögu var beðið um lausn á vandamálinu.

Þaðan kom hins vegar engin lausn og flugfélagið fór því sjálft í aðgerðir til þess að finna lausn á vandanum. Vinnan hófst þann 27.apríl í ár en flugvirkjar Air France höfðu ekki hafið vinnuna við flugvélina sem fórst.

Air France hefur sex sinnum átt í vandræðum vegna hraðamælanna samkvæmt The Times. Eitt tilvikanna átti sér stað milli Parísar og Tokyo en þá settu flugmenn vélarinnar af stað viðvörun, eftir vandamál tengt stormi. Afleiðing vandamálanna var að sjálfstýring vélanna var aftengd og önnur kerfi settu af stað viðvörun. Í öllum sex tilvikum tókst flugmönnunum að ná aftur stjórn yfir vélunum.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert