Án efa verða langar biðraðir við bensínstöðvar í Danmörku í dag því boðað hefur verið að á morgun hækki eldsneytisverð um 16-17 aura lítrinn. Hefur verð á bensíni þá hækkað um 33% á árinu.
Viðmiðunarverð á 95 oktana bensíni verður þá 10,63 danskar krónur lítrinn, sem svarar til 253 íslenskra króna. Um áramótin kostaði bensínlítrinn 7,98 danskar krónur. Algengt verð á bensínlítranum hér á landi er nú tæpar 180 krónur en verðið hækkaði síðast í gær.
Þetta er þó ekki hæsta verð sem sést hefur í dönskum krónum því í júlí í fyrra komst bensínverðið í 11,88 krónur lítrinn. Þá var verð á hráolíu einnig í hámarki á heimsmarkaði og fór yfir 140 dali tunnan. Það er nú rúmlega 71 dalur tunnan.