Mögulegt að flugvél Air France 447 hafi sent fjölda villuskilaboða eftir að hún brotnaði á flugi. Búist er við því að flugrannsóknarnefndir einbeiti sér að kenningum sem byggja á biluðum eða frosnum hraðamælum.
Búið var að skipta um hraðamæla í mörgum Airbus 330 og 340 vélum Air France en ekki í þeirri sem fórst.
Fyrrum flugmaður segir í viðtali við fréttastofuna Sky að mögulega hafi hraðamælir valdið því að erfitt var að stjórna vélinni. Þeir hafi barist við það í mikilli ókyrrð og það hafi síðan leitt af sér að vélin brotnaði.
Flugmaðurinn, Alastair Rosenschein, segir að röð bilana í rafkerfi hafi getað sent vélina til jarðar. ,,Venjulega þegar slys á sér stað eru einn eða tveir hlutir sem fara úrskeiðis en það er ólíklegt að 24 hlutir fari úrskeiðis í einu. Það er líklegt að stór hluti viðvarananna hafi verið sendur eftir slysið, eftir að vélin er byrjuð að brotna í sundur því það er ekkert sem hindrar skilaboðin svo lengi sem það er straumur í kerfinu."
Leitarlið halda áfram leit sinni af svarta kassanum en leitarsvæðið er 2000 mílna stórt. Eftir tvær vikur mun merki kassans byrja að dvína. Enn sem komið er hafa einungis fundist 49 lík af þeim 228 sem voru um borð.
Frank Taylur, prófessor við Cranfield háskóla, segir að það að líkin séu fatalaus sé afleiðing þess að vélin brotnaði annað hvort að hluta eða algjörlega meðan hún var enn í loftinu.
,,Þegar líkamar koma út úr flugvél inn í loftstraum er líklegt að föt annað hvort tætist algerlega af þeim eða endi upp flækt um axlir eða ökkla," segir hann. Hvor það gerðist í þessu tilviki veit ég ekki en það að líkin er klæðalaus bendir til þess að þau hafi farið úr vélinni í mikilli hæð."
Von á bráðabirgðaskýrslu frá frönsku rannsóknarnefndinni í dag.