Fékk leðju og ryk í andlitið

Andstæðingar Ahmadinejads í göngu í Teheran í dag þar sem …
Andstæðingar Ahmadinejads í göngu í Teheran í dag þar sem minnst var þeirra sem hafa fallið síðustu daga. Reuters

Ummæli Mahmouds Ahmadinejads, forseta Írans, um þá sem taka þátt í mótmælum vegna forsetakosninganna þykja sum nokkuð harkaleg. Og sum þeirra fær hann nú aftur í andlitið.

 ,,Hin mikla elfur þjóðarinnar myndi ekki leyfa leðju og ryki að streyma fram" sagði forsetinn um andstæðinga sína. Einnig sagði hann þá hylla opinberlega ,,þjófa, samkynheigða og drullusokka" til að fá atkvæði þeirra.

En þótt stjórnvöld geri allt sem þau geta til að hindra upplýsingaflæði gengur þeim illa að stöðva netið. Íranar búsettir erlendis hlaupa undir bagga og gerast milliliðir til að fólk í heimalandinu geti haft samskipti. Nú eru niðrandi ummælin um leðju og ryk (á farsi khas o khashak) orðin að vinsælu slagorði sem oft sést á spjöldum í mótmælagöngum.

 Umbótablaðið Etemad-e Melli birti í gær risastóra mynd af mótmælendum með spjald þar sem stóð: Örlagasaga leðju og ryks. Vinsæll söngvari, Mohammad Reza Shajarian, hefur nú beðið ríkísútvarpið íranska sem stýrt er af stuðningsmönnum Ahmadinejads, um að hætta að flytja lög sem hann hefur samið vegna þess að ,,rödd mín er rödd leðju og ryks og mun ávallt verða það".

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert