Stuðningsmenn Mir Hossein Mousavis, forsetaframbjóðanda í Íran, hafa komið saman til mótmælafundar í Teheran, höfuðborg landsins, fjórða daginn í röð. Hvatti Mousavi stuðningsmenn sína til að vera svartklædda til að minnast þeirra, sem létu lífið í skotárás öryggissveita á mánudag.
Æðsti leiðtogi klerkastjórnarinnar í Íran hefur hvatt írönsku þjóðina til að fylkja sér á bak við ríkið og er mótmælafundurinn í dag í beinni andstöðu við það. Mousavi fullyrðir, að brögð hafi verið í tafli í forsetakosningunum sl. föstudag þar sem Mahmoud Amedjinedad, forseti landsins, var lýstur öruggur sigurvegari.
Í gær gengu tugir þúsunda manna eftir aðalgötu Teheran með myndir af Mousavi. Sumir voru með klúta fyrir andlitinu.