Leiðtogafundur Evrópusambandsins hvatti í dag yfirvöld í Búrma til að láta Nóbelsverðlaunahafann Aung San Suu Kyi, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í landinu, lausa úr fangelsi. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, tilkynnti á fundinum að ákveðið hefði verið að herða refsiaðgerðir gegn herforingjastjórninni.
„Evrópa ákvað í dag að herða refsiaðgerðir og grípa til frekari aðgerða gegn yfirvöldum í Búrma,” sagði hann. Þá sagði hann Suu Kyi sennilega vera rómaðasta pólitíska fanga heims og að verði henni og 2.000 öðrum pólitískum föngum í landinu ekki sleppt fyrir fyrirhugaðar kosningar í landinu á næsta ári muni það grafa mjög undan trúverðugleika þeirra.Suu Kyi, sem er 64 ára í dag, er í haldi á meðan réttarhöld fara fram yfir henni vegna meints brots hennar á stofufangelsisúrskurði yfir henni. Hún hefur setið í stofufangelsi um það bil þrettán ár á undanförnum nítján árum. Síðasti stofufangelsisúrskurður yfir henni rann út skömmu eftir að hún var handtekin fyrir að láta ekki yfirvöld vita af Bandaríkjamanni sem synti yfir á landareign hennar.
Fjöldafundir eru haldnir í a.m.k. tuttugu borgum víða um heim í dag til að krefjast lausnar Suu Kyi. Í höfuðstöðvum stjórnmálaflokks hennar í Rangoon, stærstu borga Búrma, slepptu stuðningsmenn hennar blöðrum og smáfuglum í tilefni dagsins og færðu munkum matargjafir.