Leiðtogafundur Evrópusambandsins hvatti í dag yfirvöld í Búrma til að láta Nóbelsverðlaunahafann Aung San Suu Kyi, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í landinu, lausa úr fangelsi. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, tilkynnti á fundinum að ákveðið hefði verið að herða refsiaðgerðir gegn herforingjastjórninni.
Suu Kyi, sem er 64 ára í dag, er í haldi á meðan réttarhöld fara fram yfir henni vegna meints brots hennar á stofufangelsisúrskurði yfir henni. Hún hefur setið í stofufangelsi um það bil þrettán ár á undanförnum nítján árum. Síðasti stofufangelsisúrskurður yfir henni rann út skömmu eftir að hún var handtekin fyrir að láta ekki yfirvöld vita af Bandaríkjamanni sem synti yfir á landareign hennar.