Barack Obama hefur nú gegnt embætti Bandaríkjaforseta í fimm mánuði og margt bendir til þess, að hveitibrauðsdögunum sé nú að linna og alvaran að taka við. Tvær kannanir gefa til kynna, að heldur sé að draga úr ánægju Bandaríkjamanna með frammistöðu forsetans í embætti.
Svo virðist sem bandrískur almenningur hafi vaxandi áhyggjur af miklum ríkisútgjöldum sem fylgja opinberum björgunaraðgerðum vegna bílaiðnaðarins í Bandaríkjunum. Í könnun, sem bandaríska blaðið New York Times og sjónvarpsstöðin CBS hafa birt kemur fram, að 60% svarenda telja ekki, að stjórnvöld hafi mótað skýra stefnu um hvernig taka eigi á fjárlagahallanum.
Þá sögðust 69% svarenda í könnun Wall Street Journal og NBC, að þeir hefðu áhyggjur af opinberum aðgerðum, sem miða að því að veita fé inn í hagkerfið.