Forseti Bandaríkjanna Barack Obama hélt í dag ræðu um föðurhlutverkið og velti fyrir sér hvaða áhrif fjarvera föður hans hafi haft á hans eigið líf. Á sunnudaginn halda Bandaríkjamenn upp á feðradaginn og hvatti Obama alla feður til að standa sig í stykkinu.
Sjálfur sagðist Obama ekki alltaf hafa verið hinn fullkomni faðir í ræðunni sem var beint til ungra feðra og feðra sem tilheyra minnihlutahópum.
„Börn sem vaxa föðurlaus úr grasi eru líklegri til að hætta námi og enda ferilinn í fangelsi," sagði Obama en faðir hans var ekki til staðar á uppvaxtarárum forsetans sem hefur lýst uppvaxtarárum sínum í bókinni Dreams from My Father.