Fyrrum forsætisráðherra Bretlands, Tony Blair, er einnig flæktur í fjármálahneyksli það sem hefur hrakið sex ráðherra frá störfum og sett pólitískt líf Gordon Brown í hættu.
Undanfarnar vikur hefur hver ráðherrann á fætur öðrum tekið saman föggur sínar eftir að blaðið The Daily Telegraph birti upplýsingar um kostnaðargreiðslur þingmanna.
Nú hefur komið í ljós að forsætisráðherrann fyrrverandi fékk einnig greiddan kostnað vegna viðhalds og viðgerða á eigin heimili.
Tveimur dögum áður en Blair lét af embætti fékk hann endurgreidd 7.000 pund (um 1,5 milljón íslenskar í dag) fyrir þakviðgerðir á heimili sínu. Er þetta enn eitt dæmið um ráðherra sem hefur nýtt kerfið til þess að gera við eða endurnýja sitt annað heimili með peningum skattborgaranna.
Blair hefur þegar fengið fyrirspurnir vegna reikninganna. Það gerðist eftir að í ljós kom að hann hafði fengið 296.000 pund fyrir íbúð sína, sem er tíu sinnum meira en hann borgaði fyrir hana í upphafi. Þetta gerðist nokkrum mánuðum áður en Blair keypti hús í London fyrir 3,65 milljónir punda.
Breskir ráðherrar hafa leyfi til þess að fá endurgreiddan kostnað sem skapast vegna starfsloka en það lítur út fyrir að fleiri ráðherrar hafi púkkað upp á heimili sín síðustu vikurnar í starfi til þess að gera þau auðseljanlegri. Þetta hefur valdið því að fólk hefur verið ásakað um að misnota kerfið.
Tony Blair á reyndar enn heimili sitt í Trimdon í Durham sýslu, þar sem þakviðgerðirnar fóru fram. Aðrir ráðherrar hafa hins vegar notað endurgreiðslurnar til þess að láta lagfæra eignir svo hægt sé að selja þær með hagnaði. Einn þessara ráðherra er viðskipta- og byggingamálaráðherrann Mandelson lávarður sem fékk endurgreidd 3000 pund fyrir vinnu við heimili hans í Hartlepool, viku eftir að hann sagði að hann hygðist segja af sér. Það gerði hann hins vegar ekki.
Á þessum tveimur árum síðan að Blair hætti hefur hann samkvæmt Telegraph unnið sér inn um 16 milljónir pund með því að sinna ýmsum leiðtogastörfum, halda fyrirlestra og bókakynningar.