Óeirðalögregla á götum í Teheran

Óeiðralögregla er á götum í Teheran þar sem þúsundir manna …
Óeiðralögregla er á götum í Teheran þar sem þúsundir manna mótmælir. STRINGER/IRAN

Óeirðalög­regla hef­ur komið sér fyr­ir á göt­um í miðborg Teher­an í Íran þar sem tug­ir þúsunda mót­mæla. Fréttamaður BBC á staðnum full­yrðir að lög­regl­an hafi notað vatns­byss­ur, kylf­ur og tára­gas til að halda aft­ur af mót­mæl­end­um.

Æðsti trú­ar­leiðtogi Írans, Ayatollah Khamenei, varaði mót­mæl­end­ur í gær við að halda áfram mót­mæl­um. Þessi hót­un virðist ekki hafa haft til­ætluð áhrif og raun­ar segja sum­ir að hót­un­in hafi haft þver­öfug áhrif. Í ræðunni lýsti Khamenei yfir ein­dregn­um stuðningi við Mahmoud Ahma­dinejad for­seta lands­ins, en full­yrt er að hann hafi verið end­ur­kjör­inn for­seti með mikl­um yf­ir­burðum. Stuðnings­menn Mir Hossein Mousavi, sem einnig bauð sig fram í kosn­ing­un­um, full­yrða að svik séu í tafli og Ahma­dinejad sé ekki rétt­kjör­inn for­seti.

Óeirðalög­regl­an er að reyna að koma í veg fyr­ir að mót­mæl­end­ur kom­ist að Eng­helab-torgi. Einn mót­mælti full­yrti í sam­tali við AFP að hann hefði séð lög­regl­una berja fólk með kylf­um. Í frétta­skeyt­um er tekið fram að erfitt sé að fá áreiðan­leg­ar frétt­ir af ástand­inu, en stjórn­völd í Íran hafa vísað frétta­mönn­um úr landi og reynt að tak­marka frétt­ir af ástand­inu í land­inu.

Erfitt er að fá upp­lýs­ing­ar um hversu marg­ir eru að mót­mæla í miðborg Teher­an, en BBC birti áðan mynd­ir sem sýna göt­ur full­ar af fólki. Marg­ir eru einnig á þökum húsa og hrópa: "Íran - Íran".

Ungt fólk og kon­ur eru áber­andi í röðum mót­mæl­enda, en um 60% þjóðar­inn­ar er yngri en 30 ára. Fréttaþulur BBC vakti at­hygli á því að á fundi Ayatollah Khamenei í gær þar sem hann for­dæmdi mót­mæl­end­ur voru fyrst og fremst full­orðnir karl­menn viðstadd­ir. Átök­in virðast því að nokkru leyti vera milli kyn­slóða, þ.e. þeirr­ar kyn­slóðar sem stóð fyr­ir bylt­ing­unni 1979 og hef­ur stutt hana og ungs fólks sem man ekki eft­ir bylt­ing­unni og styður frjáls­lynd­ari viðhorf. Það eru einnig átök á milli fólks í þétt­býli og sveit­um lands­ins, en íbú­ar Teher­an eru al­mennt frjáls­lynd­ari á meðan íbú­ar lands­byggðar­inn­ar styðja klerka­stjórn­ina og Ahma­dinejad for­seta.

Mir Hossein Mousavi, sem flest­ir mót­mæl­enda studdu í for­seta­kosn­ing­un­um, hef­ur farið var­lega í yf­ir­lýs­ing­um síðustu daga. Eig­in­kona hans, sem tók virk­an þátt í kosn­inga­bar­áttu hans, hvatti hins veg­ar mót­mæl­end­ur í morg­un til að mót­mæla á göt­um úti.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert