Óeirðalögregla á götum í Teheran

Óeiðralögregla er á götum í Teheran þar sem þúsundir manna …
Óeiðralögregla er á götum í Teheran þar sem þúsundir manna mótmælir. STRINGER/IRAN

Óeirðalögregla hefur komið sér fyrir á götum í miðborg Teheran í Íran þar sem tugir þúsunda mótmæla. Fréttamaður BBC á staðnum fullyrðir að lögreglan hafi notað vatnsbyssur, kylfur og táragas til að halda aftur af mótmælendum.

Æðsti trúarleiðtogi Írans, Ayatollah Khamenei, varaði mótmælendur í gær við að halda áfram mótmælum. Þessi hótun virðist ekki hafa haft tilætluð áhrif og raunar segja sumir að hótunin hafi haft þveröfug áhrif. Í ræðunni lýsti Khamenei yfir eindregnum stuðningi við Mahmoud Ahmadinejad forseta landsins, en fullyrt er að hann hafi verið endurkjörinn forseti með miklum yfirburðum. Stuðningsmenn Mir Hossein Mousavi, sem einnig bauð sig fram í kosningunum, fullyrða að svik séu í tafli og Ahmadinejad sé ekki réttkjörinn forseti.

Óeirðalögreglan er að reyna að koma í veg fyrir að mótmælendur komist að Enghelab-torgi. Einn mótmælti fullyrti í samtali við AFP að hann hefði séð lögregluna berja fólk með kylfum. Í fréttaskeytum er tekið fram að erfitt sé að fá áreiðanlegar fréttir af ástandinu, en stjórnvöld í Íran hafa vísað fréttamönnum úr landi og reynt að takmarka fréttir af ástandinu í landinu.

Erfitt er að fá upplýsingar um hversu margir eru að mótmæla í miðborg Teheran, en BBC birti áðan myndir sem sýna götur fullar af fólki. Margir eru einnig á þökum húsa og hrópa: "Íran - Íran".

Ungt fólk og konur eru áberandi í röðum mótmælenda, en um 60% þjóðarinnar er yngri en 30 ára. Fréttaþulur BBC vakti athygli á því að á fundi Ayatollah Khamenei í gær þar sem hann fordæmdi mótmælendur voru fyrst og fremst fullorðnir karlmenn viðstaddir. Átökin virðast því að nokkru leyti vera milli kynslóða, þ.e. þeirrar kynslóðar sem stóð fyrir byltingunni 1979 og hefur stutt hana og ungs fólks sem man ekki eftir byltingunni og styður frjálslyndari viðhorf. Það eru einnig átök á milli fólks í þéttbýli og sveitum landsins, en íbúar Teheran eru almennt frjálslyndari á meðan íbúar landsbyggðarinnar styðja klerkastjórnina og Ahmadinejad forseta.

Mir Hossein Mousavi, sem flestir mótmælenda studdu í forsetakosningunum, hefur farið varlega í yfirlýsingum síðustu daga. Eiginkona hans, sem tók virkan þátt í kosningabaráttu hans, hvatti hins vegar mótmælendur í morgun til að mótmæla á götum úti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka