Grænlendingar fagna því í dag að landið fær aukna sjálfstjórn. Ný lög eru að taka gildi en í þeim felst að Grænlendingar taka sjálfir yfir lögreglumál, dómsmál og grænlenska verður formlega tungumál Grænlendinga. Þá koma Grænlendingar til með að hafa meiri vald á nýtingu náttúruauðlinda landsins.
Margir erlendir gestir sækja Grænland heim á þessum tímamótum. Meðal þeirra eru Margrét Þórhildur Danadrottning, Hinrik prins, Friðrik krónprins og María krónprinsessa. Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands og Dorrit Moussaieff, kona hans. verða viðstödd hátíðarhöldin ásamt Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, forseta Alþingis.
Hápunktur hátíðarhaldanna er þegar Margrét Danadrottning afhendir Grænlendingum nýju lögin. Grænlendingar samþykktu lögin í þjóðaratkvæðagreiðslu í nóvember á síðasta ári. Þó Grænlendingar fái með lögunum aukna sjálfstjórn fara Danir áfram með utanríkismál fyrir hönd Grænlendinga.
Danir hafa stjórnað Grænlandi í u.þ.b. þrjár aldir. Landið fékk takmarkaða sjálfstjórn árið 1979. Íbúar landsins eru um 57 þúsund. Um 30% af allir landsframleiðslu kemur í formi fjárstuðnings frá Danmörku.
Nýr formaður landsstjórnar Grænlendingar, Kuupik Kleist, hefur lofað að taka á félagslegum vandamálum í Grænlandi, en áfengisvandi er þar mikill og heimilisofbeldi sömuleiðis. Í síðustu kosningum sigruðu vinstri- og miðjuflokkar og mynduðu nýja landsstjórn.