Varar við of miklum væntingum

Jean-Claude Trichet, bankastjóri Seðlabanka Evrópu.
Jean-Claude Trichet, bankastjóri Seðlabanka Evrópu. Reuters

Jean-Claude Trichet, bankastjóri evrópska seðlabankans, segir mikla óvissu ríkja um hvort spá bankans, um að efnahagurinn í Evrópu rétti úr kútnum á næsta ári, gangi eftir. Hann hafi sjálfur sannfæringu fyrir því en því sé ekki að leyna að óvissan sé mikil. Þá sé einnig áhætta fyrir hendi.

„Það ætti að geta verið jákvæður vöxtur á næsta ári. Það er það sem ég hef sagt. Það væri rangt að líta á þessa spá sem áreiðanlega ályktun. Það er óvissa og áhætta fyrir hendi,“ sagði í Trichet í samtali við útvarpsstöðina Radio 1, sem AFP-fréttastofan vitnar til.

Trichet sagði forsendu þess að spár Evrópulanda gengju eftir, sem flest gera ráð fyrir jákvæðum viðsnúningi í efnahagsmálum á fyrri hluta næsta árs, að fjárfestar hefðu sjálfstraust til þess að stunda viðskipti. Þá hefðu stjórnvöld gripið víðast hvar til aðgerða sem ættu til lengri tíma að stuðla að jákvæðum vexti.

Landsframleiðsla hefur minnkað í næstum öllum Evrópuríkjum vegna heimskreppunnar. Sérstaklega hefur ástandið verið alvarlegt í Austur-Evrópu en þar er enn talin hætta á því að ástandið geti versnað. Landsframleiðsla hefur dregist saman um allt að 13 prósent í þeim heimshluta, mest í Lettlandi og Litháen sem þegar hafa leitað til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert