Franco Frattini, utanríkisráðherra Ítalíu, skoraði fyrr í dag á stjórnvöld í Íran um að binda enda á pólitíska upplausn í landinu með friðsamlegum hætti. „Við höfum áhyggjur og erum í uppnámi vegna dauðsfalla í mótmælunum í Íran,“ sagði Frattini. Talið er að fleiri erlendir ráðherrar muni skora á stjórnvöld í Íran í dag.
Fréttir af því hversu margir hafa látið lífið í Teheran eru misvísandi. Bandaríska fréttastofan CNN heldur því fram að 19 hafi látist en stjórnvöld í Íran hafa gefið það út að 10 séu látin. Þá hefur BBC það eftir heimildarmönnum sínum a.m.k. 13 hafi látið lífið.
Mikil upplausn hefur verið í Teheran, höfuðborg Írans, síðan úrslit í forsetakosningunum voru gerð opinber. Hussein Mousavi, mótframbjóðandi Mamoud Ahmadinejad í forsetakosningum, tapaði. Hann sagði kosningaúrslitin hafa verið svik og pretti og krafðist nýrra kosninga. Á það voru stjórnvöld ekki tilbúin að fallast en sögðust tilbúin að telja um tíu prósent atkvæða að nýju. Það tilbúið var strax sagt ófullnægjandi að hálfu stuðningsmanna Mousavi.