Fleiri atkvæði en kjósendur

Verndarráðið í Íran, sem falið hefur verið að yfirfara framkvæmd forsetakosninganna þari, viðurkenndi í gær að ekki hefði verið allt með felldu við framkvæmd kosninganna. Þannig hefðu atkvæði í 50 héröðum verið fleiri en fjöldi manna á kjörskrá. Úrslitum kosninganna hefur verið mótmælt daglega.

Írönsk stjórnvöld handtóku að minnsta kosti 457 manns um helgina, að sögn ríkisútvarps landsins. Meðal þeirra var Faezeh Hashemi, dóttir Akbar Hashemi Rafsanjanis, fyrrum forseta landsins, en henni var sleppt í gær.

Hashemi hefur stutt forsetaframbjóðandann Mir Hossein Mousavi af ráðum og dáð en Mousavi fullyrðir að Mahmoud Amadinejad, forseti landsins, hafi haft rangt við í forsetakosningunum. Stuðningsmenn Mousavis hafa staðið fyrir mótmælafundum og sjálfur hefur hann hvatt þá til að halda áfram mótmælum en sýna þó sjálfsstjórn.

Flestir voru handteknir um helgina þegar öryggislögreglu og mótmælendum lenti saman á og við Azaditorg í Teheran á laugardag. Að minnsta kosti 10 manns létu lífð og hundruð særðust.  

Andrúmsloftið í Teheran var þrungið spennu í morgun en ekki er vitað hvort mótmælafundir verði haldnir í dag. Þá er ekki að sjá að mikill viðbúnaður sé af hálfu lögreglu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert