Fréttaskýring: Dauði andófskonu reynist olía á eldinn

„Ég get ímyndað mér að þessi unga kona verði að hálfgerðri helgimynd byltingarinnar. Ekki aðeins að hún sé ung, vel menntuð kona, heldur líka hitt að hún skyldi vera að leita eftir réttlæti og frelsi. Hún er að mörgu leyti orðin birtingarmynd þeirrar kröfu að breytingum verði komið á í írönsku samfélagi. Það eru íranskar konur fyrst og fremst sem eiga mest undir því að samfélaginu verði breytt í frjálslyndisátt,“ segir Magnús Þorkell Bernharðsson, sérfræðingur í málefnum Mið-Austurlanda, um þann örlagavald sem píslarvættisdauði Nedu, ungrar, íranskar konu, kann að reynast.

Stúlkunni blæddi út á götu í Teheran eftir að því er virðist tilefnislausa árás.

Ódæðið hefur kynt undir ólgunni í röðum andstæðinga Mahmouds Ahmadinejads, sitjandi forseta, og telur Magnús tildrögin táknræn.

Til merkis um lögleysuna

„Það að til sé myndband sem sýnir að það var Basiji-sérsveitarmaður, óeinkennisklæddur sjálfboðaliði á vegum stjórnarinnar, sem stóð að þessu, hefur opnað augu margra fyrir því að stjórnin hefur ekki lengur stjórn á þessum mönnum – að nú sé uppi lögleysa þar sem fulltrúar hins hrokafulla afls herji á saklausa.“

Magnús segir píslarvættið eiga sér djúpar, trúarlegar rætur í Íran.

„Yfirgnæfandi meirihluti Írana er sjítar en það er eitt megineinkenni þeirra að þeir minnast píslarvættisdauða Husseins, barnabarns spámannsins Múhameðs, sem lést árið 680, þegar hann var myrtur af Yazid, fylkisstjóra í Damaskus. Samkvæmt sögutúlkun sjíta var Hussein trúaður, saklaus maður sem lifði einföldu lífi og var drepinn af hrokagikki, valdamiklum manni sem var ekki ýkja trúaður.

Í gegnum tíðina hafa sjítar minnst þessa dauða með tiltekinni hátíð, Azura, þar sem píslarvættisdauði Husseins er settur á svið.“

Mir Hossein Mousavi, helsti andstæðingur Ahmadinejads forseta, hefur lýst því yfir að hann sé reiðubúinn að verða píslarvottur.

Magnús segir dauða Husseins sífellda uppsprettu slíks píslarvættis.

Alltaf sé auðvelt að finna hrokafulla, valdamikla menn á borð við forsetann til að gegna hlutverki Yazid, á meðan almenningur, eða í þessu tilviki Mousavi, taki á sig hlutverk Husseins, hins minnimáttar sem yfirvöld berja sífellt á.

Gegndi mikilvægu hlutverki

Inntur eftir þýðingu píslarvættis í írönsku byltingunni segir Magnús að árin 1978 og 1979 hafi það verið þungamiðjan í táknrænni hlið byltingarinnar þar sem keisarinn, Múhameð Reza Pahlavi, var hið hrokafulla, veraldlega afl en þjóðin í hlutverki Husseins sem trúaðs og saklauss fólks sem troðið var á.

Magnús telur minningarathöfnina um Nedu kunna að verða mikilvæga, enda hafi mótmælendur notað trúarleg tákn til að krefja

Dæmin úr sögunni

Í gegnum tíðina hafa ljósmyndir af sögulegum atburðum, einkum stríðum, oftar en ekki greypst í vitund áhorfandans. Magnús Þorkell, sem telur of snemmt að skera úr um hvort myndin af Nedu kunni að verða sett á þann stall, nefnir tvö fræg dæmi úr sögunni.

Annars vegar þegar mynd af naktri, víetnamskri stúlku sem flýr brennandi þorp eftir napalmárás Bandaríkjahers þótti undirstrika þann mannlega harmleik sem stríðið var og hins vegar ljósmynd Roberts Kappa af augnablikinu þegar maður er skotinn til bana í spænska borgarastríðinu.

Neda Agha Soltani.
Neda Agha Soltani.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert