Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) telur nú að botni efnahagskreppunnar í heiminum, verði náð fyrr en áður hefur verið talið. Stofnunin telur þó að samdráttur í hagkerfum þeirra þrjátíu iðnríkja sem aðild eiga að stofnuninni verði 4,1% á þessu ári. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Forsvarsmenn stofnunarinnar vara þó við því að líkur séu á því að batinn verði hægur og að hætta verði á bakslagi í nokkurn tíma. Stofnunin hefur nú í fyrsta skipti á tveimur árum endurskoðað fyrri spá sína, vegna batnandi aðstæðna.
Sérfræðingar OECD segja að þrátt fyrir að hagvöxtur hafi dregist mikið saman frá því í október á síðasta ári fram í mars á þessu ári séu nú vísbendingar um að farið sé að draga úr hruninu. Þeir segja þó enn útlit fyrir að framleiðsla í heimunum minnki um 2,2% á þessu ári.
Sérfræðingarnir segja kreppuna nú þá mestu frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar og að áhrifa hennar gæti sérstaklega í Bretlandi þar sem útlit sé fyrir 4,3% samdrátt á þessu ári og engan hagvöxt á næsta ári. Enn sé heldur engin skýr batamerki að sjá á evrusvæðinu, vegna mikilla verðhækkana á fasteignamarkaði þar, samdráttar í útflutningi og þeim skaða sem orðið hafi á fjármálamörkuðum.
Samdráttur í Bandaríkjunum og Japan virðist hins vegar stefna í að verða minni en spáð hafi verið og það ráði miklu um þróunina á heimsmælikvarða. Það sama eigi við um stór hagkerfi ríkja, sem ekki eigi aðild að stofnuninni, svo sem Kína.Þetta geri það m.a. að verkum að stofnunin vonist nú til þess að 0,7% hagvöxtur verði í þeim hagkerfum sem best eru sett á árinu 2010. Í fyrri spá stofnunarinnar var gert ráð fyrir 0.1% hagvexti á næsta ári. „Það lítur út fyrir að komist hafi verið hjá verstu niðurstöðu,” segir í yfirlýsingu stofnunarinnar.
„Jafnvel þótt þetta sé hægur bati þá er slík niðurstaða mikill árangur af þeirri vinnu sem lögð hefur verið í stefnumótun í efnahagsmálum.”