Kim Jong Un, 26 ára gamall sonur Kim Jong Il, leiðtoga Norður-Kóreu, hefur verið settur yfir leyniþjónustu landsins. Er þetta talinn vera þáttur í undirbúningi fyrir að sonurinn taki við ríkinu af föður sínum í fyllingu tímans.
Kim skipaði háttsettum embættismönnum í ríkisöryggisþjónustunni að staðfesta skipun yngsa sonar síns í embætti yfirmanns stofnunarinnar. Í staðinn fengu embættismennirnir lúxusbíla að gjöf. Þetta fullyrðir suður-kóreska blaðið Dong-a Ilbo í dag.
Blaðið segir, að Kim yngri hafi haft yfirumsjón með réttarhöldum og varðhaldi tveggja bandarískra blaðakvenna, sem handteknar voru í Norður-Kóreu í mars. Konurnar voru báðar dæmdar í árs fangelsi fyrir að fara ólöglega inn í landið og vinna gegn hagsmunum Norður-Kóreu.
Öryggisþjónusta norður-kóreska ríkisins hefur strangt eftirlit með opinberum stofnunum, hernum og venjulegum borgurum sem taldir eru haga sér óviðurkvæmilega. Þá stundar stofnunin einnig njósnir erlendis.