Mávar herja nú á hvali við strendur Argentínu og finnast nú æ fleiri hvalir dauðir.
Vísindamenn veittu þessari hegðun mávanna fyrst athygli fyrir 35 árum en þeir leituðu þá skýringa á stórum sárum sem mynduðust á húð hvalanna.
Fréttavefur BBC greinir frá því að mávarnir gogga gegnum ysta lag húðar hvalanna og komast í spiklagið. Af þessu hljótast stór opin sár á skrokkum hvalanna og eru sum sárin allt að hálfur metri að lengd. Atgangur mávanna er slíkur að skurðsárin eru alsett bitförum og leiða oftar en ekki til dauða hvalanna. Mávarnir ráðast frekar að kúm með kálfa og hefur kálfadauði aukist mjög.
Vísindamenn standa ráðþrota gegn þessari plágu og segja að ekki séu dæmi um slíkan atgang máva gegn hvölum annars staðar í veröldinni.
Vísindamenn telja að stóraukin fiskvinnsla og aukin losun úrgangs frá fiskvinnslum á svæðinu, hafi dregið að mávager. Mávarnir hafi hins vegar fljótt fundið út að hvalspikið væri girnilegri kostur.
Rannsóknir eru nýhafnar á plágunni og verður reynt að finna leiðir til að bregðast við henni.