Upptökur af samtölum Richards M. Nixons, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, sýna að hann taldi fóstureyðingar nauðsynlegar til að koma í veg fyrir að fólk af mismunandi kynþáttum eignaðist saman börn.
Nixon lét taka upp allar samræður, sem fóru fram á skrifstofu hans og það leiddi að lokum til þess að hann neyddist til að segja af sér embætti þar sem spólurnar sýndu fram á að hann hefði vitað um áform um að reyna að þagga Watergate-hneykslið niður.
Bókasafn Nixons hefur á undanförnum árum birt gögnum um segulbandsspólurnar. Breska sjónvarpsstöðin Sky segir, að sérkennileg ummæli Nixons um fóstureyðingar megi finna á spólum, sem nú hafa verið gerðar opinberar.
Hæstiréttur Bandaríkjanna hafði þegar þetta var komist að þeirri niðurstöðu að fóstureyðingar væru löglegar. Nixon segir þá við Charles Colson, aðstoðarmann sinn: „Ég viðurkenni, að það getur komið að því að fóstureyðingar séu nauðsynlegar, ég veit það."
Hann kemur síðan með dæmi um „hvíta og svarta" og bætti við: „eða nauðgun."
Spólurnar og minnisblöð, sem einnig hafa verið birt, sýna að samstarfsmenn Nixons reyndu að koma saman áætlun um viðbrögð vegna innbrotsins í höfuðstöðvar Demókrataflokksins í Watergate byggingunni í Washington árið 1972.
Þá sýna skjölin einnig hvernig Nixon reyndi að finna leiðir til að koma Bandaríkjunum út úr stríðinu í Víetnam. Í símtali, sem hann átti í janúar 1973, daginn sem hann sór embættiseið sem forseti í annað sinn, segir hann að sprengjuárásir sem gerðar voru á Hanoi yfir jólin hafi verið réttlætanlegar til að koma friðarviðræðum af stað að nýju.
Á spólunum eru einnig samtöl forsetans við gamanleikarann Bob Hope um málefni stríðsfanga í Víetnam og rúmdýnur í Hvíta húsinu.