Sjöunda árið í röð fækkaði banaslysum í umferðinni í Frakklandi í fyrra. Dauðsföll voru 4.275 sem er 7,5% fækkun frá árinu 2007. Sömuleiðis hefur þeim fækkað jafnt og þétt sem meiðast í umferðaróhöppum. Þróunin er þökkuð ýmsum ráðstöfunum til að auka á öryggi í umferðinni. Fyrir um tveimur áratugum biðu að jafnaði um 10.000 manns bana í umferðinni í Frakklandi.
Í fyrra slösuðust 93.798 manns í umferðinni og er það í fyrsta sinn síðan elstu menn muna að þeir eru innan við 100.000. Voru þeir 103.321 árið áður og til marks um hvernig slösuðum hefur fækkað jafnt og þétt er að árið 1991 voru þeir rúmlega 200.000.
Meðalhraði í umferðinni hefur minnkað um 10% á sex árum. Er það fyrst og fremst þakkað stöðugri fjölgun hraðaratsjáa meðfram þjóðvegum og við þéttbýli. Hraðakstur er enn annar helsti orsakavaldur banaslysa, næst á eftir akstri undir áhrifum áfengis. Þriðja helsta orsökin er vanræksla á notkun öryggisbelta.
Ríkisstjórn Nicolas Sarkozys forseta hratt í síðustu viku úr vör nýrri herferð gegn banaslysum í umferðinni undir formerkjunum: „Björgum lífum linnulaust.“ Takmarkið er að árið 2012 verði tala látinna á vegunum komin undir 3.000 á ári.
Fyrir utan vegabætur hefur það átt einna mestan þátt í að bæta umferðarmenninguna í Frakklandi á síðustu árum, að hraðaratsjám hefur verið komið upp við þjóðvegi um allt land. Um síðustu áramót voru þær orðnar 2.300, þar af 1.473 á föstum stöðum og 837 færanlegar.