Bandaríska utanríkisráðuneytið hefur staðfest að bandarísk yfirvöld hafi sent vopn til stjórnarhers bráðabrigðastjórnarinnar í Sómalíu. Í yfirlýsingu ráðuneytisins segir að þetta hafi verið gert sem svar við hjálparbeiðni bráðabrigðastjórnarinnar sem á í vök að verjast gegn íslamistum í landinu. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Talsmaður ráðuneytisins Ian Kelly segir Bandaríkjastjórn ákveðna í að aðstoða yfirvöld í Sómalíu við að „hrinda sókn öfgamanna sem séu ákveðnir í að spilla tilraunum til að koma á friði og stöðugleika í Sómalíu."
Bandarísk yfirvöld munu einnig veita yfirvöldum í Sómalíu hernaðarlega ráðgjöf en bandarískir hermenn eða sérfræðingar munu þó ekki fara til landsins.
Fréttaskýrendur segja yfirvöld í Bandaríkjunum slegin yfir hröðum uppgangi íslamista í Sómalíu að undanförnu. Þeir hafa náð stórum hluta landsins og hluta höfuðborgarinnar Mogadishu á sitt vald frá því eþíópískar hersveitir yfirgáfu landið fyrr á þessu ári.
Sjeik Sharif Sheikh Ahmed, forseti Sómalíu, fór í síðustu viku fram á neyðaraðstoð nágrannaríkja Sómalíu og alþjóðasamfélagsins til að verja yfirvöld bráðabrigðastjórnarinnar í landinu.