Engin brögð í tafli í Íran

Mahmoud Ahmadinejad opnaði nýja verksmiðju í Íran í morgun.
Mahmoud Ahmadinejad opnaði nýja verksmiðju í Íran í morgun. Reuters

Svonefndt verndarráð, sem hefur yfirumsjón með kosningum í Íran, sagði í dag að engar vísbendingar væru um kosningasvik í forsetakosningum, sem fóru fram í landinu um miðjan mánuðinn. „Þetta voru hreinustu kosningar sem farið hafa fram," sagði talsmaður ráðsins.

Ráðið hefur undanfarna 10 daga farið yfir framkvæmd  kosninganna og talsmaður þess, Abbasali Kadkhodai, sagði við fréttastofuna Irna í morgun, að engar vísbendingar hefðu fundist um að rangt hafi verið haft við.

Mahmoud Amadinejad var lýstur sigurvegari kosninganna en Mir Hossein Mousavi, helsti keppinautur hans og leiðtogi stjórnarandstöðunnar, hefur fullyrt að stjórnvöld hafi hagrætt niðurstöðunni. Hundruð þúsunda manna hafa tekið þátt í mótmælafundum gegn kosningaúrslitunum. 

Utanríkisráðherrar G8 ríkjanna, sem nú sitja á fundi í Trieste á Ítalíu, vinna að því að koma sér saman um sameiginlega yfirlýsingu vegna ástandsins í Íran. Franco Frattini, utanríkisráðherra Ítalíu, segir að í yfirlýsingunni verði ofbeldi og kúgun fordæmd. 

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússalands, hefur þó varað við því að Íran verði einagrað á alþjóðavettvangi vegna málsins. Yfirvöld í Íran hafa ítrekað sakað yfirvöld á Vesturlöndum um að ýta undir spennu í landinu í kjölfar kosninganna þar þann 12. júní.

Þá hafa þau brugðist sérlega hart við gagnrýni yfirvalda í  Bretlandi og Bandaríkjunum á aðgerðir yfirvalda gegn mótmælendum í Íran.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert