Fulltrúaþing Bandaríkjanna samþykkti í gær byltingakennt loftslagsfrumvarp sem miðar að því að minnka loftmengun í landinu og takast á við hlýnun jarðar. Naumur meirihluti var fyrir frumvarpinu en Barack Obama sagði niðurstöður kosningarinnar vera „gríðarlegan árangur.“
Frumvarpið þarf að hljóta samþykki öldungadeildarinnar til að verða að lögum og þar verður eflaust tekist hart á um innihald þess. Frumvarpið miðar m.a. að því að búið verði skera niður útblástur samkvæmt viðmiðum frá 2005 um 17% árið 2020 og að notuð verði endurnýjanleg orka.
Stuðningsmenn þess segja frumvarpið munu búa til nýjan „grænan“ iðnað, örva atvinnumarkaðinn og nýsköpun auk þess sem Bandaríkin verði ekki eins háð olíu frá erlendum ríkjum.
Andstæðingar þess, sem eru bæði úr röðum demókrata og repúblikana, segja það hinsvegar munu leiða til mikils atvinnuleysis í Bandaríkjunum og auka skattahækkanir.