Hæstiréttur Hondúras fyrirskipaði handtöku forsetans

Stuðningsmaður forsetans mótmælir framan við forsetahöll Hondúras.
Stuðningsmaður forsetans mótmælir framan við forsetahöll Hondúras. Reuters

Hæstiréttur Hondúras segist hafa mælt fyrir um það við herinn, að Manuel Zelaya skyldi fjarlægður úr forsetaembætti. Þing landsins mun í kvöld fjalla um tillögu þess efnis, að Roberto Micheletti, forseti þingsins, verði útnefndur forseti landsins. 

Hermenn umkringdu forsetahöllina snemma í morgun, handtóku forsetann og fluttu hann á herflugvöll. Þar var hann settur um borð í flugvél, sem flaug til nágrannaríkisins Kosta Ríka.

Zelaya sagðist í kvöld vera réttmætur leiðtogi Hondúras þrátt fyrir atburði dagsins. 

Hæstiréttur Hondúras sendi frá sér yfirlýsingu síðdegis þar sem hann sagðist hafa fyrirskipað að forsetinn yrði fjarlægður úr embætti. Rétturinn hafði áður úrskurðað, að þjóðaratkvæðagreiðsla, sem Zelaya ætlaði að standa fyrir í dag um að hann gæti verið lengur í embætti en eitt kjörtímabil, væri ólögleg.

Í yfirlýsingu réttarins segir, að herinn, sem eigi að styðja stjórnarskrá landsins, hafi gripið til aðgerða til að viðhalda lögum og reglu.

Stuðningsmenn Zelaya lögðust á götur til að stöðva ökutæki hersins.
Stuðningsmenn Zelaya lögðust á götur til að stöðva ökutæki hersins. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert