Arnold Schwarzenegger, ríkisstjóri í Kalíforníu, lýsti í gærkvöldi yfir efnahagslegu neyðarástandi í ríkinu og kallaði jafnframt ríkisþingið saman til aukafundar til að loka allt að 24 milljarða dala fjárlagagati.
Kalíforníuríki skortir lausafé og getur ekki greitt alla reikninga frá og með deginum í dag. Schwarzenegger segir í yfirlýsingu sinni, að lausafjárgatið verði 6,5 milljarðar dala í september ef ríkisþingið samþykkir ekki stórfelldan niðurskurð á útgjöldum vegna opinberrar þjónusti.
Þá hefur Schwarzenegger fyrirskipað, að mörgum ríkisstofnunum verði lokað fyrsta, annan og þriðja föstudag í hverjum mánuði fram til júní 2010. Starfsmenn þessara stofnana fá ekki greidd laun fyrir þessa þrjá daga. Lokunin nær ekki til sjúkrahúsa, fangelsa og ríkislögreglunnar.