Fólki af sama kyni heimilt að elskast á Indlandi

Indverskur dómstóll komst að þeirri niðurstöðu í dag að kynlíf fólks af sama kyni sé ekki glæpsamlegt að því gefnu að þeir sem það stunda geri það viljugir. Snýr þetta lögum frá tíma nýlenduyfirráða Breta sem kváðu „holdlegt samræði gegn lögmálum náttúrunnar“ glæpsamlegt. Viðlögð refsing var sekt og allt að tíu ára fangelsi.

Hæstiréttur Nýju-Delhi úrskurðaði að í banni við kynlífi samkynhneigðra fælist mismunun sem bryti gegn grundvallarréttindum sem indverska stjórnarskráin verndar.

Fátítt var að fólk væri sótt til saka á grundvelli laganna en baráttufólk fyrir réttindum samkynhneigðra segja lögreglu hafa áreitt fólk og ógnað því í skjóli laganna.

Málið kom fyrir dóm fyrir tilstuðlan Naz-sjóðsins sem er berst fyrir rétti samkynhneigðra og vitundarvakningu um alnæmi. Úrskurðurinn er ekki bindandi utan Nýju-Dehli en lögfræðingar sem studdu málareksturinn segja hann vera mikilvægt fordæmi.

Trúarhópar í landinu hafa sett sig mjög upp á móti málinu, sérstaklega leiðtogar kristinna og múslimskra hreyfinga. Telja þeir alla samkynhneigða hegðun vera „ónáttúru“ sem beri að banna með lögum. 

Samræði samkynhneigðra hefur löngum verið feimnismál í Indlandi og enn í dag líta margir á samkynhneigð sem sjúkdóm.

Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert