Saddam Hussein, fyrrverandi Íraksforseti, vildi ekki hleypa vopnaeftirlitsmönnum Sameinuðu þjóðanna inn í Írak til þess að Íranir, erkifjendur Íraka, kæmust ekki að því hversu staða Íraks væri orðin veik. Þetta kemur fram í viðtölum sem bandarískir alríkislögreglumenn áttu við Saddam strax eftir að hann var handtekinn og hafa nú verið birt.
Saddam kvaðst heldur hafa viljað eiga á hættu að Bandaríkjamenn yrðu pirraðir. Íranir hefðu með athugunum vopnaeftirlitsmannanna getað komist að því hvar veikir punktar Íraks væru.
Saddam hélt því fram að öll gereyðingarvopn Íraks hefðu verið eyðilögð árið 1998 og viðurkenndi að það hefðu verið mistök að láta ekki Sameinuðu þjóðirnar sannreyna það.
Forsetinn fyrrverandi mun einnig hafa lýst því yfir að hann hefði ekkert samband við Osama bin Ladin, leiðtoga hryðjuverkasamtakanna Al-Qaida.
Bandaríkin réðust inn í Írak í mars árið 2003. Saddam fór huldu höfði en fannst í desember sama ár. Hann var tekinn af lífi 2006 eftir réttarhöld í sérstökum dómstól í Írak.