Lögreglan í Villmanstrand í Finnlandi skaut í kvöld birnu og tvo húna. Birnan hafði nokkrum klukkustundum áður bitið konu, sem var að skokka, í fótinn.
Íbúarnir í miðbæ Villmanstrand voru beðnir um að halda sig innandyra á meðan lögreglan leitaði bjarndýrsins. Samkvæmt sjónarvottum hafði það haldið í átt að miðbænum eftir árásina á konuna. Lögreglan fann birnuna og húnana á akri við skóla.
Líklegt er talið að birnan hafi ráðist á konuna til þess að vernda húna sína þegar konan nálgaðist.
Bjarndýr sjást æ oftar í íbúðahverfum í Finnlandi. Fyrir 10 árum lést skokkari eftir árás bjarndýrs og var það í fyrsta skipti í 100 ár sem bjarndýr varð manni að bana í landinu.