Drengur lést úr hlaupabólu

Fimm ára drengur lést úr hlaupabólu í í Bretlandi eftir að foreldrum hans hafði ítrekað verið neitað um að fá lækni heim til að líta á hann. Þremur dögum áður hafði drengurinn verið sendur heim af sjúkrahúsi. Þetta kemur fram á fréttavef Sky.

Fram kemur í skýrslu  breskra yfirvalda um málið að drengurinn, Fabio Alves-Nunes, hafi látist eftir að líffærastarfsemi hans brást í kjölfar veikindanna. Foreldrar hans höfðu þá þrisvar hringt og beðið um að fá lækni heim en fengið þau svör að þau skyldu baða drenginn í köldu vatni og gefa honum verkjalyf.

Áður höfðu þau tvisvar leitað með drenginn á East Surrey-sjúkrahúsið í Redhill. Í seinna skiptir skoðaði læknir hann í tæplega hálftíma og sendi hann síðan heim með verkja- og sýklalyf.

„Við munum litla drenginn okkar með svo sokkin augu að hann gat varla séð, líkami hans var þakinn opnum votum sárum. Uppáhaldsnáttfötin hans voru útötuð í blóði, svita og grefti," segir móðir hans Anna Alves-Nunes í viðtali við blaðið Daily Mirror.

„Hann var með óráði og svo uppgefin af kvölum og uppþornun að hann gat ekki lyft höfðinu frá koddanum. Við sáum að það var eitthvað mikið að, þannig að hvers vegna sáu tveir læknar og þrír hjúkrunarfræðingar það ekki?”

 Surreyand Sussex Healthcare NHS sjóðurinn, sem rekur sjúkrahúsið, hefur beðið foreldrana afsökunar og viðurkennt að mistök hafi átt sér stað. Forsvarsmenn hans viðurkenna þó ekki að umrædd mistök hafi valdið dauða drengsins í febrúar á síðasta ári.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert