Ísraelskir hermenn drápu hundruð óbreyttra borgara á Gaza, börn jafnt sem fullorðið fólk, og gerðust sekir um stríðsglæpi. Kemur þetta fram í afar harðorðri skýrslu frá Amnesty International, sem einnig sakar Hamas-hreyfinguna og önnur herská, palestínsk samtök um að hafa framið stríðsglæpi með því að skjóta flugskeytum á Ísrael.
„Mörg hundruð óbreyttra borgara voru drepin í árásum úr lofti, með flugskeytum eða skriðdrekaskothríð og aðrir, þar á meðal konur og börn, voru skotnir á færi þótt þeir ógnuðu ekki ísraelsku hermönnunum á neinn hátt,“ segir í skýrslunni. Þar segir einnig, að Ísraelar hafi beitt óbreyttum borgurum fyrir sig sem skildi. Skýrsla Amnesty International kemur á hæla skýrslu sem nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna birti í maí og er niðurstaða beggja sú sama.
AI krefst þess, að hvorirtveggja, Ísraelar og Palestínumenn, leyfi sjálfstæða rannsókn á átökunum á Gaza en Ísraelar hafa í raun hafnað öllu samstarfi við SÞ um það.
Í yfirlýsingu frá Ísraelsher var niðurstöðunum í skýrslu Amnesty International hafnað og samtökin sökuð um að hafa látið Hamas-samtökin villa sér sýn. Saka Ísraelar þau um að nota óbreytta borgara sem skjöld en AI segist ekki hafa fundið þess nein dæmi. Donatella Rovera, sem starfar hjá AI, segir ljóst, að Ísraelar ætli sér að hunsa alþjóðasamfélagið í þessu máli.