Fékk ekki að hitta Aung San Suu Kyi

Herforingjastjórnin á Búrma heimilaði Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, ekki að hitta baráttukonuna Aung San Suu Kyi, í dag. Aung Sna Suu Kyi var nýlega færð úr stofufangelsi í hið alræmda fangelsi Insein í Yangon, en Ban er í opinberri heimsókn á Búrma. Lýsti hann yfir miklum vonbrigðum með þessa ákvörðun stjórnvalda.

Ban átti tvo fundi með Than Shwe, leiðtoga stjórnarinnar í gær og í dag, og upplýsti um synjunina að loknum síðari fundinum. Ban fer frá Búrma í dag. „Ég er gríðarlega vonsvikinn," sagði Ban við fréttamenn í morgun er hann yfirgaf höfuðborgina, Naypyidaw og hélt til Yangon.

Ban sagði að Than Shwe hafi gefið þá skýringu á því að hann fengi ekki að hitta baráttukonuna vera þá að réttarhöld standi nú yfir henni. Á hún yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsi ef hún verður fundin sek um að hafa brotið gegn reglum sem giltu um stofufangelsun hennar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert