Herforingjastjórnin á Búrma heimilaði Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, ekki að hitta baráttukonuna Aung San Suu Kyi, í dag. Aung Sna Suu Kyi var nýlega færð úr stofufangelsi í hið alræmda fangelsi Insein í Yangon, en Ban er í opinberri heimsókn á Búrma. Lýsti hann yfir miklum vonbrigðum með þessa ákvörðun stjórnvalda.
Ban átti tvo fundi með Than Shwe, leiðtoga stjórnarinnar í gær og í dag, og upplýsti um synjunina að loknum síðari fundinum. Ban fer frá Búrma í dag. „Ég er gríðarlega vonsvikinn," sagði Ban við fréttamenn í morgun er hann yfirgaf höfuðborgina, Naypyidaw og hélt til Yangon.
Ban sagði að Than Shwe hafi gefið þá skýringu á því að hann fengi ekki að hitta baráttukonuna vera þá að réttarhöld standi nú yfir henni. Á hún yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsi ef hún verður fundin sek um að hafa brotið gegn reglum sem giltu um stofufangelsun hennar.