Mikhail Gorbachev, fyrrum leiðtogi Sovétríkjanna, sagði í sjónvarpsviðtali í dag að mjög mikilvægt væri að draga úr kjarnorkuvopnavæðingu. Þá sagði hann að honum hafi fundist Reagan Bandaríkjaforseti vera alger risaeðla. Þetta kemur fram á fréttavef Sky.
„Ef við losum okkur ekki við kjarnorkuvopnin munu þau fjörutíu ríki sem ekki eru aðilar að kjarnorkuklúbbnum halda að þau sem eru það séu að reyna að stjórna heiminum með kjarnorkuvopnum sínum," sagði hann.
„SS18 eldflaug inniheldur 100 Tsjernóbyl. Ég vona að Obama sé maðurinn sem muni koma kjarnorkuafvopnunarferlinu aftur í gang. Ég vona virkilega að hann sé það," sagði hann og vísaði þar til kjarnorkuslyssins í Tsjernóbyl.
Til stendur að Gorbachev eigi fund með Barack Obama Bandaríkjaforseta, sem er á leið í opinbera heimsókn til Rússlands. Hann segist telja samskipti Rússa og Bandaríkjanna hafa versnað til muna frá valdatíð sinni.
„Ég held að samskipti Bandaríkjanna og Rússlands séu mun verri nú en þau voru í minni tíð. Ég held þó líka að það séu til staðar möguleikar á breytingum í rétta átt og til endurnýjaðra samskipta," sagði hann.
„Við höfum nýja kynslóð fólks beggja vegna og það fólk er nógu metnaðargjarnt til að taka ábyrgð."
Gorbachev sagði jafnframt að honum hafi fundist Ronald Reagan, þáverandi Bandaríkjaforseti, alger risaeðla er hann hitti hann fyrst. „Mér fannst hann vera maður fortíðarinnar og mér var sagt að hann hefði sagt að ég væri harðnefja bolseviki. Þrátt fyrir þetta tókst okkur að ná tímamótasamkomulagi um takmörkun kjarnorkuvopna."