Pind tekur undir málflutning rokkara

Søren Pind.
Søren Pind.

Søren Pind, talsmaður danska stjórnmálaflokksins Venstre í utanríkismálum, þykir gefa í skyn á bloggi sínu í dag að hann telji að töluvert sé til í þeim staðhæfingum rokkarasamtakanna Hells Angels að þau hafi tekið við löggæslu í Kaupmannahöfn þar sem lögregla hafi ekki staðið sig sem skyldi. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands Posten.

„Það er óforsvaranlegt að við skulum árið 2009 sjá rokkara og morðingja standa uppi sem verndara samfélagsins," sagði hann upphaflega í bloggi sínu. Síðar breytti hann orðum sínum þannig að þar stendur nú að rokkarar og morðingjar hafi „stigið fram" sem verndarar samfélagins.

Í viðtali við Ritzau fréttastofuna, sagðist hann ekki líta á rokkara sem verndara samfélagsins. Hann neitaði þó að útskýra ummæli sín í því ljósi.

 Umfjöllun bloggfærslu hans tengist svokallaðri Sjakal-yfirlýsingu Hells Angels sem birt var á vef samtakanna í síðustu viku. Þar er bláið til sóknar gegn „sjakölum" sem skilgreindir eru þannig að þeir séu oftast arabar, sem hræði börn og unglinga, ráðist á gamalt fólk og komi fram með frekjugangi í umferðinni."   

Kim Andersen, talsmaður Venstre, segir umræðu um félagslega framkomu þarfa og Pind vera mikilvægan þáttakanda í henni. Sjálfur sé hann hins vegar ekki hlynntur því að byggja slíka umræðu á orðum Hells Angels.

„Mér finnst hins svokallaða Sjakala-yfirlýsing draga fólk allt of mikið í dilka. Hún er allt of almenn og stuðlar að því að flokka fólk niður í þá og okkur og skapa spennu á milli slíkra hópa. Það fellur ekki að stefnu Venstre," segir hann. „Mér finnst þetta mikilvæg umræða en ég vildi að við gætum byggt hana á öðrum grunni en Sjakala-yfirlýsingunni. Þetta er mikilvæg umræða bæði varðandi innflytjendamál og samfélagslegt gildismat."

Í bloggfærslunni gagnrýnir Pind einnig lögregluna í Kaupmannahöfn. Martin Henriksen, talsmaður Danska þjóðarflokksins, segist á vissan hátt sammála Pind en þó telja réttara að beina gagnrýnni að yfirvöldum í landinu en lögreglu.

„Það er fáránlegt að Hells Angels skuli hafa skapað sér sess í umræðunni með því að orða hugmyndir sem búa með mörgum Dönum," segir hann. „Hells Angels eru glæpamenn." 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert